top of page

Svefn

Svefn er náttúruleg og nauðsynleg hvíld manna og dýra og flestir telja að hann sé nauðsynlegur til að hvíla og endurnæra huga og heila. Ólíkt því sem margir halda þurfa þeir sem hreyfa sig mikið ekki meiri svefn en kyrrsetufólk.

Hér að neðan má sjá svefnþarfir barna og fullorðinna:

Fullorðnir: 18 ára og eldri þurfa að meðaltali 7 ½  til 9 tíma svefn.

Unglingar: 12 til 18 ára þurfa að meðaltali 8 ½ til 10 tíma svefn.

Börn: 5 til 12 ára þurfa að meðaltali 10 til 11 tíma svefn.

Leikskólabörn: 3 til 5 ára þurfa að meðaltali 12til 14 tíma svefn.

Smábörn: 0 til 1 árs þurfa allt frá 12 tímum upp í 18 tíma svefn.

Ef við fáum hins vegar ekki nógu mikinn svefn þá förum við í það sem kallast svefnskuld, sem við þurfum að borga upp seinna með meiri svefni. Líkaminn getur ekki aðlagast skertum svefni og því meiri svefn sem fólk missir því erfiðara er að bæta hann upp. Svefnskortur hefur ekki líkamleg áhrif á getu en hefur mikil áhrif á andlega líðan, veldur til dæmis eirðarleysi, einbeiting skerðist, viðbragðsími lengist, skapsveiflur aukast og fólk fer jafnvel að fá ofskynjanir.

Það er ákveðið mynstur í eðlilegum svefni. Hann skiptist í nokkur stig, eftir líkams- og heilastarfsemi í hverju stigi. Í svoleiðis mynstri skiptast á draumasvefn og djúpsvefn nokkrum sinnum á nóttu. Svefnmynstur getur raskast mjög auðveldlega, hvort sem það eru hrotur eða hljóð úti, og þá minnka svefngæði.

Þegar við sofnum förum við yfirleitt í grunnan NREM-svefn (e. norapid-eye-movement) og sá svefn skiptist í 4 stig. Um það bil 75-80% af svefntímanum er NREM-svefn og það sem eftir stendur er REM-svefn (e. rapid-eye-movement). Í honum eru vöðvarnir slakari, öndunin dýpri og hraðari og að auki einkennist REM-svefninn af hröðum augnhreyfingum sem svefninn dregur nafn sitt af.

Það hafa fundist tengsl á milli mikillar skjátækjanotkunar og styttri svefntíma barna og unglinga og einnig hefur því verið haldið fram að tækjanotkun stutt fyrir svefn minnki gæði svefnsins. Þau sem eru allan daginn í tölvum og tækjum eru líklegri til að sofa lítið og svefninn er ekki eins djúpur. Börnin eru því þreytt daginn eftir. Ef barn er í einhvers konar tæki rétt fyrir svefn eru miklar líkur á því að það eigi eftir að fá lélegan svefn og muni eiga erfitt með að sofna. Ljósin sem koma frá skjánum senda heilanum boð um að það sé ekki kominn tími til að fara að sofa. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á tengsl milli skjátækjanotkunar og svefnerfiðleika, mótþróa á háttatíma, svefnkvíða og næturvöknunar.

Það kemur því ekki á óvart að þau börn sem hafa snjalltæki eða skjátæki inni í herbergi sínu hafa mælst með styttri svefntíma að meðaltali. Það er talið sérstaklega slæmt að hafa sjónvarp í svefnherbergi barna vegna þess að þá eru auknar líkur að sjónvarpið sé notað rétt fyrir svefninn.

bottom of page