top of page

Snjalltæki

Hugtakið snjalltæki er tiltölulega nýtt hugtak í íslensku máli og er hvergi skilgreint í orðasöfnum. Þegar fólk talar um snjalltæki á það oftast við snjallsíma og spjaldtölvur eða þau tæki sem er baklýstan snertiskjár og nettengingu.

Víða erlendis hefur verið reynt að banna eða takmarka snjallsímanotkun í skólum. Fyrir nokkrum árum voru til dæmis settar reglur í Englandi um símanotkun í skólunum og eftir það hækkuðu einkunnir nemenda um sex prósent. Ef nemandi hafði ekki verið að standa sig nógu vel fyrir, þá hækkaði hann um fjórtán prósent. Mörgum finnst að það ætti að banna síma í skólum í fleiri löndum og fræðimenn segja oft að það sé neikvætt að leyfa börnunum að hafa síma og nota hann þegar þau ættu að vera að læra.

Snjalltækjaþróunin er hins vegar að mörgu leyti jákvæð. Tölvur og snjallsímar auðvelda samskipti, bjóða upp á margs konar afþreyingu og gera notendum kleift að afla sér upplýsinga óháð stað og stund. Börn á unga aldri eru strax orðin vön gagnvirku umhverfi snjalltækja og margt bendir til að notkun slíkra tækja örvi sköpunargáfu barna og ímyndunarafl. Það er til ógrynni af mjög góðum kennsluforritum sem hægt er að nýta sér til góðs. Þau geta hjálpað börnunum að læra stafina, tölustafi og alls konar lög. Snjalltækjabyltingin er því að mörgu leyti jákvæð en hún hefur einnig ýmsa hættu í för með sér.

Foreldrar láta börnin sín fá snjalltæki og oft eyða þau allt of miklum tíma í þeim. Sumir foreldrar nota snjalltækin sem huggunaraðferð þegar börn gráta og þau fást ekki til að róast. Börnin eru stanslaust í tækjunum og minni tími fer því í eitthvað uppbyggilegt eins og lestur, útivist, samverutíma með foreldrum og fleira. Þetta getur endað í fíkn og verið skaðlegt fyrir heilann. En hvað er þá hægt að gera til að koma í veg fyrir að þetta verði að vandamáli? Hægt er til dæmis að stjórna því hvað börnin gera í tækjunum og takmarka tímann sem þau eru í tækjunum og þannig koma í veg fyrir að þau séu í þeim allan daginn. Þessi snjalltækjaþróun getur því verið jákvæð svo lengi sem fullorðnir passa upp á að börnin séu ekki að vafra sjálf um án eftirlits.

bottom of page